tisdag 28 december 2021

Störst av allt är kärleken.

 

Sigurður Ingólfsson 


"Á stuttum tíma hef ég kynnst aðeins, tveimur mjög ungum drengjum. Annar er sonur vinkonu minnar sem kemur stundum til að láta mig taka lyfin mín en eftir síðustu heimsókn fékk ég far með henni og drengnum niður í Kolaport að reyna að finna jólagjafir, en keypti samt mest handa mér (bækur). Drengurinn beið svo hjá mér á meðan móðir hans fór að sækja bílinn. Hún spurði drenginn hvort að hann biði ekki bara með mér (furðulega gaurnum með skrýtna talandann og stundum furðulegt málfar) og ég sagði móðurinni eins og rétt er að drengurinn héti jú Steinar og að því nafni fylgdi smekkvísi og skynsemi. Eigandi einn slíkan. Móðirin fór að ná í bílinn og við sátum þarna spakir við spilastokk sem einhver hafði skilið eftir. Þetta voru einhverskonar kristin spáspil, eða leiðbeiningar og þá komst ég að því hvað var alla vega eitt merkilegt við drenginn. Hann var með Mónu Lísu á heilanum og var ekki alveg viss hvort Móna Lísa væri Guð eða konan hans Guðs, eða bara kona sem væri Guð. Það var hvort eð er ekki aðalatriðið, hver væri hærra settur heldur guðlegheitin við myndina af Mónu. Sem væri hægt að skrifa fallega barnabók um. Myndin af Mónu. Skynsamur og glaðsinna drengur og enn eitt ljósið í bjartsýni minni með ungt fólk almennt. Hinn er sonur frænku minnar í Þorlákshöfn og var í heimsókn hjá móðurbróður mínum Halldóri og Esther konu hans. Hann kom strax í fangið á mér og stakk upp í mig bita af soðiðbrauði með smjöri og vænum skammti af slefi og mikið var það gott og minnti mig á stundirnar þegar ég gekk um með drengina okkar Lóu eins og iðandi tímasprengjur af kátínu. Hundurinn Vera var með og saman kuðluðumst við í sófanum hjá frænda, borðuðum soðiðbrauð og smjör með hundinum og allt var þetta einhvernvegin dásamlegt. Aðalbjörg Halldórsdóttir, takk fyrir þessa stund. Allt í allt eru börn og unglingar endalaust að sýna mér hvað framtíðin er björt. Allir þessir kverúlantar og svartagallsrausarar sem hafa verið til frá örófi alda og agnúast út í þá sem eru eitthvað yngri, hljóta að fara að deyja út. Eða það vona ég. Ef að við eldra fólkið (mér finnst ég vera blanda af unglingi og gamalmenni) viljum enn reyna að horfa til framtíðar, leyfum þá æskunni að njóta sín, hvetjum en letjum ekki. Og þá er komið að því sem lá til grundvallar þessu tilskrifi. Við erum öll trúuð á vissan hátt. Án þess að gera sér grein fyrir því hvað það er merkilegt að það gerist, þá erum við viss um að það komi nýr dagur á morgun. Það er bæði trú og von. Ef að við viljum að sá dagur verði til góðs á einhvern hátt, auðsýnum við kærleika. Og bara með þessari trú og von á morgundaginn og með kærleika, getum við horft til óræðrar framtíðar með í það minnsta örlitlu brosi. Og takk fyrir það."

Inga kommentarer:

Skicka en kommentar